Fréttapistill | 10. júní 2024

Þakklæti eftir opið hús

Ég er þakklátur öllum þeim sem lögðu leið sína á Bessastaði á laugardaginn var. Við Eliza nutum þess að taka á móti fjölda gesta sem heimsóttu okkur. Þetta var síðasti viðburðurinn af þessu tagi í minni forsetatíð og nú bættist við að til hans var boðað vegna 80 ára afmælis lýðveldis á Íslandi.

Fólkið sem leggur leið sína á þjóðhöfðingjasetrið – húsakynni sem tilheyra öllum landsmönnum – er eins ólíkt og það er margt og kom víða að úr öllum landsfjórðungum. Sum voru uppáklædd, konur jafnvel í upphlut eða skautbúningi. Elsti gesturinn var 95 ára, sá yngsti þriggja mánaða. Í hópnum var einnig talsvert um fólk sem er nýflutt hingað og vill skapa sér farsæla framtíð hér, meðal annars frá Evrópulöndum eins og Úkraínu og Póllandi en einnig fjarlægari stöðum; Venesúela, Filippseyjum og víðar. Samfélag okkar á Íslandi er ekki fullkomið en getur verið svo fagurt og fjölbreytt.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta mánudaginn 10. júní.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar