Fréttapistill | 19. júní 2024

Hamingjuóskir til orðuhafa

Ég óska öllum aftur til hamingju sem sæmd voru heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu hér á Bessastöðum hinn 17. júní. Það er einstök ánægja að geta með þessum táknræna hætti heiðrað þau sem „skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar“ eins og það var orðað þegar stofnað var til orðunnar árið 1921. Við lýðveldisstofnun árið 1944 varð forseti Íslands stórmeistari fálkaorðunnar og mér þótti vænt um að síðustu orðuveitingu mínu á þjóðhátíðardeginum bar upp á 80 ára afmæli lýðveldisins. Í ávarpi mínu til orðuhafa og ástvina þeirra nefndi ég meðal annars að þeirra væri heiðurinn en um leið væri verið að meta að verðleikum þá viðleitni fólks í samfélaginu að láta gott af sér leiða, að verða að liði, hugsa um hag annarra. Megi okkur Íslendingum farnast vel í okkar lýðveldi næstu 80 ár og um alla framtíð!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 19. júní 2024.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar