Fréttapistill | 15. júlí 2024

Á Ströndum

Nú er lokið síðustu opinberu heimsókninni í minni forsetatíð. Mér þykir vænt um að hafa haldið norður á Strandir í eitt fámennasta byggðarlag landsins við það tilefni. Á táknrænan hátt vildi ég þannig minna á að það er meira sem sameinar okkur á Íslandi en það sem skilur okkur að og breytir þá engu hvar við erum á landinu. Ég færi íbúum og forystusveit Árneshrepps innilegar þakkir fyrir þá gestrisni og góðvild sem ég naut í þessu víðfeðma sveitarfélagi.

Margt dreif á dagana í hreppnum og má fræðast frekar um dvölina og skoða myndasafn á vefsíðu embættisins, forseti.is. Hér nefni ég þó notalega gistingu í Norðurfirði, ljúfan kvöldverð með hreppsbúum í félagsheimilinu í Trékyllisvík, fróðlega leiðsögn um síldarverksmiðjuna í Djúpavík og einnig var litið við á Eyri í Ingólfsfirði þar sem verksmiðja reis á sínum tíma. Þar náðist þó ekki að mala gull – eða silfur hafsins – eins og í Djúpavík fyrstu árin. Bygging þeirrar verksmiðju var þrekvirki, í raun einstakt verkfræðiafrek og má svo sannarlega halda þeirri sögu á lofti eins og heimamenn gera með sóma.

Á Ströndum er sagan við hvert fótmál, stundum eins harkaleg og harðbýl náttúran, með hrikaleg fjöll á aðra hönd og úfið haf á hina. Ég gekk um galdrastíg og kynnti mér sögu Baska á þessum slóðum, hvalveiðar þeirra og hörmulega þætti sem þeim tengjast.

Í ávarpi til Árneshreppsbúa nefndi ég meðal annars að í þeirra harðbýlu sveit hefur fólk þurft að sýna djörfung og dug, öld fram af öld. Fái fólk tækifæri til að sýna hvað í því býr mun sú sambúð manns og náttúru halda áfram, okkur öllum til heilla. Hreppurinn telst til brothættra byggða en þar hefur þó orðið fjölgun á nýjan leik og til stendur að skólinn verði starfræktur í haust. Strandamenn kunna enn að gera sér glaðan dag og það gerðum við einnig í þessari opinberu heimsókn. Í samvinnu við Ferðafélag Íslands var gengið á Glissu, ægifagurt fjall á mörkum Reykjarfjarðar og Ingólfsfjarðar. Að því loknu skelltum við okkur allmörg í sjóinn við sendna strönd fyrir botni Norðurfjarðar og yljuðum svo kroppinn í Krossneslaug, þeim fallega stað með magnað útsýni til hafs. Að kvöldi var klykkt út með tónleikum Helga Björnssonar og félaga í fjárhúsinu á Valgeirsstöðum.

Á heimleið leit ég við á Sauðfjársetrinu góða við Steingrímsfjörð, naut þar veitinga og fræddist um sögu sauðkindarinnar. Að kvöldi horfði ég svo á úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu karla á dvalarheimilinu Höfðu á Akranesi, fótboltabæ Íslands. Ég þakka íbúum og starfsliði fyrir þann greiða. Loks ítreka ég þakkir mínar til Evu Sigurbjörnsdóttur oddvita og allra annarra sem tóku svo vel á móti mér í Árneshreppi á Ströndum.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 15. júlí 2024.

  • Kirkjurnar í Trékyllisvík í Árnessókn skoðaðar.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar