Fréttapistill | 01. des. 2024

Gleðilegan fullveldisdag, kæru landsmenn!

Gleðilegan fullveldisdag, kæru landsmenn! Á þessum degi fögnum við því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki þann 1. desember 1918, fyrir rúmri öld. Í ár höfum við líka fagnað 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Sjálf fagna ég því síðan að um þessar mundir hef ég setið ríflega 100 daga í embætti. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og skemmtilegur, enda er einstakur heiður hvern einasta dag að fá að vera forseti íslensku þjóðarinnar. Ekki síst á hátíðisdegi sem þessum.

Í tilefni dagsins mun ég heimsækja Eddu, hús íslenskunnar, síðar í dag og skoða þar glæsilega sýningu á handritunum okkar, Heimur í orðum. Í kvöld verður svo Þakkarorða íslenskrar tónlistar veitt í fyrsta sinn og hlökkum við hjónin til að njóta tónlistarveislu til heiðurs Magnúsi Eiríkssyni í Hörpu. Við megum sannarlega vera stolt af íslenskri menningu og listum, í dag og alla daga.

Nú vill svo óvenjulega til að fullveldisdagurinn fylgir beint í kjölfar almennra kosninga og er þetta aðeins í annað sinn á lýðveldistímanum kosið er um hávetur Hefðin hefur verið sú á Íslandi að kjördagur sé að vori og við vorum rækilega minnt á eina af ástæðum þess í landshlutum þar sem vetrarhríð geisaði á kjördag. En íslenska seiglan lætur ekki að sér hæða og kjörsókn var góð, þrátt fyrir allt. Ég þakka öllum þeim sem lögðu mikið á sig til þess að tryggja að kjósendur kæmust á kjörstað og atkvæðin í talningu.

Kosningar eru aðferð frjálsra og fullvalda lýðræðisþjóða til að ráða ráðum sínum. Kjósendur hafa nú falið kjörnum fulltrúum umboð til að setjast á þing og vinna að hagsmunum þjóðarinnar allrar næstu fjögur árin og til framtíðar. Því fylgir bæði ábyrgð og gleði og óska ég öllum þeim til hamingju sem hlotið hafa kosningu, um leið og ég þakka þeim sem nú hverfa á braut úr þingstörfum.

Næst tekur við að komast að samkomulagi um myndun ríkisstjórnar og hyggst ég á morgun funda með formönnum allra flokka sem sæti eiga á þingi með það fyrir augum að taka afstöðu til veitingar stjórnmyndunarumboðs. Við skulum gefa því ferli þann tíma og svigrúm sem nauðsyn krefur.

Njótið fullveldisdagsins!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 1. desember 2024.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar