Fréttapistill | 06. des. 2024

Riddarar kærleikans í Hraunvallaskóla

Á milli funda og viðburða í vikunni gafst mér tími til að þiggja heimsóknarboð í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Nemendur og kennarar hafa tekið opnum örmum hvatningunni um að gerast riddarar kærleikans og bauðst mér að skoða verkefni sem krakkarnir hafa unnið með kærleikann að vopni. Þar á meðal er vinnáttusáttmáli, en með honum skuldbunda nemendur og kennarar sig til að sýna hvert öðru virðingu og beita sér gegn hvers kyns ofbeldi.

Í pallborðsumræðum með nemendum á sal brýndi ég fyrir þeim að gæta vel að orðum sínum í öllum samskiptum, ekki síst á samfélagsmiðlum, og hvatti þau fyrst og fremst til að þora að vera þau sjálf. Sama hvatning á reyndar við um okkur öll. Því vona ég að fleiri taki börnin í Hraunvallaskóla sér til fyrirmyndar og gerist líka riddarar kærleikans. Góða helgi!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 6. desember 2024.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar