Alþjóðadagur fatlaðs fólks er árlega þann 3. desember og af því tilefni tók ég þátt í þremur hátíðarviðburðum í vikunni sem leið. Allir voru þeir dýrmæt áminning um hversu miklu ríkara samfélagið okkar er þegar við fáum öll að láta ljós okkar skína á eigin forsendum.
Fyrst voru það Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands, sem veitt eru þeim sem stuðlað hafa með verkum sínum að jafnrétti og þáttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Næst var það Múrbrjóturinn, viðurkenning Þroskahjálpar til fólks sem brýtur niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks. Nú um helgina afhenti ég síðan Frikkann, en svo nefnast heiðursverðlaun Átaks sem veitt eru þeim sem barist hafa fyrir sjálfstæði fólks með þroskahömlun.
Öll eru þau einstaklega vel að viðurkenningunum komin og mig langar til að þakka þessu frábæra fólki fyrir að bæta samfélag okkar, hvert með sínu hætti. Takk Fúsi og Kolbrún Dögg, takk Magnús Orri, Haukur og Aileen, takk Ágústa og Ólafur Snævar og til hamingju öllsömul!
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 10. desember 2024.
Sjá einnig: Alþjóðadagur fatlaðs fólks og Frikkinn.