Rauði krossinn á Íslandi fagnar nú 100 ára afmæli og naut ég þess heiðurs að ávarpa afmælishátíðina á stofndaginn, 10. desember. Embætti forseta Íslands og Rauði krossinn tengjast enda aldargömlum tryggðaböndum. Fyrsti formaður Rauða krossins hér á landi, árið 1924, var Sveinn Björnsson sem 20 árum síðar varð fyrsti forseti lýðveldisins. Við sem höfum gegnt því embætti síðan höfum öll getað kallað okkur verndara Rauða krossins á Íslandi og eitt af mínum fyrstu verkum sem forseti var einmitt að taka boði félagsins um að gerast verndari þess. Ég þakka traustið og ég þakka starfsmönnum og sjálfboðaliðum Rauða krossins fyrir ómetanlegt starf í þágu mannúðar í 100 ár. Takk fyrir að gefa af tíma ykkar og hæfileikum. Takk fyrir að vera til staðar fyrir samfélagið okkar!
Hátíðarávarp mitt í tilefni 100 ára afmælis Rauða krossins má lesa á vefsíðu embættisins.