Fréttapistill | 12. des. 2024

Stöndum saman vörð um börnin okkar

Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra að draga úr ofbeldisbrotum í samfélaginu, ekki síst þegar kemur að börnum. Því miður er það staðreynd að tilkynningum til lögreglu og barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi hefur fjölgað verulega, en við getum og eigum að snúa þeirri þróun við.

Í gær átti ég fund með fulltrúum Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar sem hafa, ásamt fjölda samstarfsaðila, þróað ítarlegt flæðirit með skýrum leiðbeiningum um fyrsta viðbragð vegna vopnalagabrota og kynferðisofbeldis. Ég tók við fyrstu eintökunum, en flæðiritin eru ætluð starfsfólki skóla, félagsmiðstöðva, og íþrótta- og æskulýðsstarfsemi.

Í samtölum mínum við skólasamfélagið síðustu mánuði hef ég orðið þess áskynja að þau sem starfa með börnum upplifa oft úrræðaleysi þegar ofbeldismál koma upp. Leiðbeiningar um fyrsta viðbragð eru mikilvægur þáttur í að tryggja samhæfð viðbrögð hringinn í kringum landið. Flæðiritunum verður dreift til skóla, fylgt eftir af samfélagslögreglumönnum um allt land og verða aðgengileg á 112.is og vefsíðu lögreglunnar. Á ofbeldisgátt 112.is er sömuleiðis að finna frekari upplýsingar um úrræði og úrvinnslu mála innan skóla, íþrótta- og æskulýðsstarfs og hjá barnaverndarþjónustu.

Stöndum saman vörð um börnin okkar.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 13. desember 2024.

  • Tekið á móti nýjum flæðiritum leiðbeiningum um fyrsta viðbragð vegna vopnalagabrota og kynferðisofbeldis.
  • Fundur með samfélagslögregluþjónum, ásamt fulltrúum Neyðarlínu og Fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, um samhæfð viðbrögð við ofbeldi meðal barna og unglinga.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar