Kæru vinir, ég þakka ykkur jákvæð viðbrögð við mínu fyrsta nýársávarpi. Í ávarpinu lagði ég áherslu á sköpunarkraftinn sem íslenskt samfélag er svo ríkt af að hér virðist manni allt vera mögulegt. Ég hugsa oft til þess hve lánsöm ég er að vera hluti af þessari þjóð. Ávarpið má lesa í heild sinni hér.
Peysufötin sem ég klæddist í ávarpinu og við orðuveitingu á nýársdag hafa líka vakið athygli. Það er gaman að segja frá því að þau átti langamma mín Guðbjörg (Gugga) Magnúsdóttir. Þjóðbúningasilfrið, nælu og stokkabelti með eikarmunstri, fékk ég að láni frá Þjóðdansafélaginu og Oddný Kristjánsdóttir, klæðskeri hjá Þjóðbúningastofu, aðstoðaði mig við samsetninguna. Ég kann þeim bestu þakkir fyrir.
Gugga langamma var Strandakona en giftist Pétri langafa mínum frá Bolungarvík og hóf með honum búskap þar. Seinna fluttust þau til Ísafjarðar. Hún gekk afa mínum, Sigurði Péturssyni, í móðurstað, en fyrir átti hún eina dóttur sem hét Halla og ég er skírð í höfuðið á henni skömmu eftir að hún lést fyrir aldur fram. Mér þykir einstaklega vænt um að langamma hafi arfleitt mig af fallegu peysufötunum sínum sem ég lét lagfæra og klæddist stolt á Bessastöðum við þetta hátíðlega tilefni.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 3. janúar 2025.