Fréttapistill | 06. jan. 2025

Hamingjuóskir til íþróttafólks

Ég óska öllum þeim til hamingju sem heiðruð voru fyrir afrek sín á sviði íþrótta um helgina. Forseti Íslands hefur ætíð verið verndari íþróttahreyfingarinnar og það gladdi mig að fá að ávarpa samkomuna og samgleðjast með þeim sem uppskáru þar eftir mikla vinnu og þrotlausar æfingar.

Glódís Perla Viggósdóttir knattspyrnukona var valin Íþróttamaður ársins eftir einstaka frammistöðu bæði með sínu félagsliði og sem fyrirliði íslenska landsliðsins. Hún varð einnig eini kvenmiðvörðurinn á lista bestu fótboltakvenna heims, í reynd best í heimi í sinni stöðu! Glódís var í hópi þeirra Íslendinga sem sæmdir voru riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag fyrir afreksárangur. Þórir Hergeirsson, sem kjörinn var þjálfari ársins, var einnig sæmdur fálkaorðunni. Verðskuldaður heiður til þessa frábæra íþróttafólks.

Í fyrsta sinn í sögunni urðu konur í þremur efstu sætum kjörsins til Íþróttamanns ársins. Þær Eygló Fanndal Sturludóttir lyftingakona og Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona unnu báðar glæsileg afrek á sínum sviðum á árinu. Þá má geta þess að lið ársins var valið karlalið Vals í handknattleik en í öðru og þriðja sæti voru kvennnalandslið Íslands í hópfimleikum kvenna og knattspyrnu. Loks var Sigurbjörn Bárðarson hestamaður útefndur í Heiðurshöll ÍSÍ og hélt hreint út sagt frábæra þakkarræðu.

Gangi ykkur íþróttafólkinu okkar áfram sem allra best á nýju ári. Þið eruð úrvals fyrirmyndir, öll sem eitt!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 6. janúar 2025.

  • Glódís Perla Viggósdóttir var kjörin Íþróttamaður ársins 2024, næstar á eftir fylgdu Eygló Fanndal Sturludóttir lyftingakona og Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingakona. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson
  • Íþróttamaður ársins 2024 kjörin. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson
  • Ávarp á hátíðarviðburði ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanni vegna kjörs á Íþróttamanni ársins. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson
  • Glódís Perla Viggósdóttir sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag, 1. janúar 2025, á Bessastöðum. Ljósmynd: Eyþór Árnason.
  • Glódís Perla Viggósdóttir sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag, 1. janúar 2025, á Bessastöðum. Ljósmynd: Eyþór Árnason.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar