Nýr sendiherra Japans, Keizo Takewaka, afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum í vikunni og áttum við góðan fund af því tilefni. Tengslin milli Íslands og Japans eru góð og á næsta ári fögnum við 70 ára stjórnmálasambandi ríkjanna. Það gladdi mig að sendiherrann hafði kynnt sér vel jafnréttisstefnu Íslands, en japönsk yfirvöld sjá ríka ástæðu til að taka jafnréttismál fastari tökum og hafa litið til Íslands sem fyrirmyndar í þeim efnum. Íslendingar horfa líka til Japans sem sést til dæmis á því að japanska var fyrsta Asíumálið sem kennt var til háskólagráðu á Íslandi og vinsældir námsins hafa vaxið mjög við Háskóla Íslands. Í vor fer Heimssýning EXPO 2025 fram í Osaka. Þar verða Norðurlöndin með sameiginlegan norrænan skála sem ætlað er að styrkja tengslin við Japan og japönsk fyrirtæki og ég hlakka til að heimsækja Japan af því tilefni ásamt íslenskri sendinefnd.
Velkominn til Íslands, kæri sendiherra.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 10. janúar 2025.