Fréttapistill | 09. jan. 2025

Unnsteinn hlýtur Bjartsýnisverðlaunin

Til hamingju Unnsteinn Manuel Stefánsson, handhafi Íslensku bjartsýnisverðlaunanna 2024! Mér hlotnaðist sú ánægja að afhenda verðlaunin í kvöld og Unnsteinn Manuel er sannarlega vel að þeim kominn. Því eins og segir í umsögn dómnefndar hefur hann á ferli sínum „sýnt fram á ótvíræða listræna hæfileika og fjölhæfni og fundið farvegi til þess að þroskast og takast á við nýjar áskoranir og fjölbreytt verkefni. Hann tekur virkan þátt bæði í menningartengdum verkefnum í ýmsum listgreinum og leggur jafnframt mikilvægum góðgerðar- og samfélagsmálum lið. Þar á ofan miðlar hann af þekkingu sinni og reynslu til yngri kynslóða."

Unnsteinn Manuel bætist í hóp rúmlega 40 íslenskra listamanna sem hlotið hafa Bjartsýnisverðlaunin, því þau hafa verið veitt árlega síðan í tíð forvera míns, Vigdísar Finnbogadóttur og hefur forseti Íslands verið verndari Bjartsýnisverðlaunanna frá upphafi.

Takk Unnsteinn, fyrir að vera frábær fyrirmynd og leiðbeinandi fyrir næstu kynslóð listamanna. Þú ert holdgervingur tveggja orða í miklu uppáhaldi hjá mér, bjartsýni og hugrekki, og ég mun seint gleyma samtali okkar um hugrekki fyrir ári síðan. Get vart beðið eftir að sjá Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta þann 9. janúar 2025.

  • Ljósmynd: Birgir Ísleifur Gunnarsson
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar