Fréttapistill | 12. feb. 2025

„Störf á tímamótum"

Það sem af er viku hef ég tekið þátt í tveimur viðburðum sem endurspegla bæði grósku og samfélagslega ábyrgð í íslensku atvinnulífi. Á mánudag flutti ég ávarp og afhenti Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi, sem veitt eru fyrir framúrskarandi stjórnun og er ætlað að stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar. Á þriðjudag var svo Menntadagur atvinnulífsins haldinn undir yfirskriftinni „Störf á tímamótum".

Þar afhenti ég Menntaverðlaun atvinnulífsins og sat fyrir svörum í arinspjalli um þróun menntunar í atvinnulífinu með hliðsjón af tækniframförum, breytingum á vinnumarkaði og samkeppnishæfni Íslands. Báðir viðburðir voru góður vettvangur til að ræða um þær flóknu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á heimsvísu og um leið tækifæri til að hvetja til ábyrgðar í atvinnulífinu og verðlauna það sem vel er gert. Til hamingju, öllsömul. Nánar má lesa um verðlaunahafana í myndatextum.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 12. febrúar 2025.

  • Arinspjall á Menntadegi atvinnulífsins um um þróun menntunar í atvinnulífinu með hliðsjón af tækniframförum, breytingum á vinnumarkaði og samkeppnishæfni Íslands. Ljósmynd: Birgir Ísleifur
  • Arion banki hlaut Menntaverðlaun atvinnulífsins fyrir öflugt og metnaðarfullt fræðslukerfi sem nýtir fjölbreyttar og nýjar leiðir til að virkja kraftinn í stórum og fjölbreyttum hópi starfsfólks. Með verkefni eins og „Konur fjárfestum!“ tengir bankinn að auki fræðslustarfið við samfélagslega ábyrgð. Ljósmynd: Birgir Ísleifsson
  • Hugbúnaðarfyrirækisins Alda var útnefnt menntasproti atvinnulífsins. Í umsögn dómnefndar segir að Alda sé leiðandi í nýsköpun í fræðslu og menntun og leggi sín lóð á vogarskálarnar til að efla fjölbreytileika og inngildingu með gagnadrifnum fræðslulausnum á vinnustöðum og samfélaginu í heild. Ljósmynd: Birgir Ísleifur
  • Tólf einstaklingar hlutu Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi árið 2025.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar