Það sem af er viku hef ég tekið þátt í tveimur viðburðum sem endurspegla bæði grósku og samfélagslega ábyrgð í íslensku atvinnulífi. Á mánudag flutti ég ávarp og afhenti Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi, sem veitt eru fyrir framúrskarandi stjórnun og er ætlað að stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar. Á þriðjudag var svo Menntadagur atvinnulífsins haldinn undir yfirskriftinni „Störf á tímamótum".
Þar afhenti ég Menntaverðlaun atvinnulífsins og sat fyrir svörum í arinspjalli um þróun menntunar í atvinnulífinu með hliðsjón af tækniframförum, breytingum á vinnumarkaði og samkeppnishæfni Íslands. Báðir viðburðir voru góður vettvangur til að ræða um þær flóknu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á heimsvísu og um leið tækifæri til að hvetja til ábyrgðar í atvinnulífinu og verðlauna það sem vel er gert. Til hamingju, öllsömul. Nánar má lesa um verðlaunahafana í myndatextum.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 12. febrúar 2025.