Fréttapistill | 18. feb. 2025

Nemendahópar á Bessastöðum

Í vikunni sem leið tók ég á móti þremur stórskemmtilegum nemendahópum og átti við þau áhugaverð samtöl, hvert á sínu sviði. Á mánudag kom hópur bandarískra námsmanna og fræðafólks sem dvelur hér á landi þökk sé rannsóknarstyrkjum á vegum Fulbright-stofnunarinnar. Það var fróðlegt að ræða sýn þeirra á framtíðina heima fyrir í Bandaríkjunum og um reynsluna af dvölinni hér á landi.

Á miðvikudag tók ég á móti hópi laganema frá Norðurlöndum sem tóku þátt í norrænni lagaviku hér á landi í boði Orators, félags laganema við Háskóla Íslands. Þema vikunnar þetta árið var „Umönnun og vernd barna þegar ofbeldi á sér stað á heimili," málefni sem er mér afar hugleikið svo það gladdi mig að ræða við lögfræðinga framtíðar um stöðu, réttindi og líðan barna og ungmenna.

Á föstudaginn tók ég svo á móti hressum hópi ungmenna úr Framhaldsskólanum á Húsavík. Þau lögðu á sig langa ferð á höfuðborgarsvæðið gagngert til þess að fræðast um Bessastaði og forsetaembættið svo það var einstaklega gaman að spjalla við þau og veita þeim leiðsögn um forsetasetrið. Takk fyrir komuna, öllsömul!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 18. febrúar 2025.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar