Við Björn fengum konunglegar móttökur í einstakri veðurblíðu í Ósló í dag við upphaf heimsóknar okkar til Noregs. Það var ánægjulegt að endurnýja kynnin við Hákon krónprins og Mette-Marit krónprinsessu og sérstaklega gleðilegt að kynnast Haraldi V. konungi og Sonju drottningu, sem tóku hlýlega á móti okkur.
Konungshjónin sögðu okkur frá ást sinni á Íslandi, en þar hafa þau verið tíðir gestir og konungur meðal annars stundað fluguveiði í íslenskum laxám. Barnabarn þeirra, Ingiríður Alexandra prinsessa, tekur nú þátt í sinni fyrstu ríkisheimsókn, 21 ári eftir að hún fór í sína fyrstu opinberu heimsókn erlendis til Íslands. Þetta er falleg tenging og vekur með okkur von um áframhaldandi vinasamband komandi kynslóða.
Heimsóknin heldur áfram næstu tvo daga og við hlökkum til að stuðla þannig að enn sterkari tengslum Íslands við frændur vora Norðmenn.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta, 8. apríl 2025.