Íslenska stendur næst þeim tungum sem talaðar voru á Norðurlöndum til forna. Á Íslendingum hvílir því sú ábyrgð að viðhalda íslenskunni, ekki aðeins sem móðurmáli með öllu sem því fylgir fyrir þjóð, heldur einnig til að gæta sameiginlegrar arfleifðar norrænna þjóða.
Á þessum nótum hóf ég borðræðu mína við hátíðarkvöldverðinn í norsku konungshöllinni í gær. Ég valdi að flytja ræðuna á íslensku, sem ekki hefur verið venjan í ríkisheimsóknum fyrri forseta en á sérstaklega vel við hér í Noregi enda tungumál okkar náskyld. Ræðan var að venju lögð útprentuð í norskri þýðingu við diska hinna erlendu gesta í höllinni og fór inntakið því ekki framhjá neinum. Íslenskan er alþjóðlegt tungumál, töluð bæði sem móðurmál okkar og kennd sem annað mál í háskólum víða um heim. Útlendingum finnst gaman að heyra tungumálið okkar og við eigum ekki að hika við að nota það. Megi íslensk tunga heyrast sem víðast!
Í borðræðunni vék ég einnig að sameiginlegum gildum í samfélagsgerð Norðurlanda, sem hafa sýnt að hægt er að byggja upp réttlátt og friðsælt samfélag þar sem jafnrétti og virðing fyrir fólki og náttúru eru höfð að leiðarljósi.
„Norræna módelið gengur upp, við setjum fordæmi sem vert er að fara eftir. Við höfum náð frábærum árangri í velsæld og vermum þar efstu sæti heims. Með því að sameina raddir okkar og krafta enn betur getum við aukið áhrifamátt Norðurlanda til góðs á tvísýnum tímum," sagði ég í borðræðunni sem lesa má í fullri lengd á vefsíðu embættisins.
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta, 9. apríl 2025.