Íslenskir listamenn eru meðal okkar allra bestu sendiherra á erlendri grundu. Því nýtum við gjarnan tækifærið í ríkisheimsóknum til að vekja athygli gestgjafaþjóðarinnar á íslensku menningarlífi og hvetja til aukins samstarfs á því sviði. Noregsheimsóknin var engin undantekning og fengum við þar til liðs við okkur skáld, rithöfund, uppistandara og píanóleikara, auk íslenska kokkalandsliðsins.
Á bókmennaviðburði við Óslóarháskóla stýrði Halldór Guðmundsson rithöfundur samtali milli skáldanna Gerðar Kristnýjar, Knut Ødegård og Metta Karlsvik. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa sótt innblástur til Eddukvæða í verkum sínum. Það var unun að hlýða á ljóðalestur þeirra bæði á íslensku og norsku, en að því loknu tóku við umræður um ljóðlistina og áhrif Snorra-Eddu á menningu okkar.
Um kvöldið efndi Ísland til móttöku til heiðurs norsku konungsfjölskyldunni til að þakka fyrir gestrisni þeirra. Þar sá íslenska kokkalandsliðið um veitingar úr íslensku úrvalshráefni og svo fengum við ungt tónskáld, Benjamín Gísla Einarsson, til að leika á píanó. Eins og svo margir Íslendingar fór Benjamín Gísli í framhaldsnám til Noregs og hefur nú skapað sér nafn í norsku jazzsenunni.
Rúsínan í pylsuendanum var svo Ari Eldjárn sem fékk konungsfjölskylduna til að tárfella af hlátri. Ari hefur nú skemmt þjóðhöfðingjum allra Norðurlanda með uppistandi, því hann kom líka fram í veislu okkar til heiðurs Friðriki X. Danakonungi síðasta haust og fylgdi fyrrverandi forseta í ríkisheimsóknum til Finnlands og Svíþjóðar.
Í Noregi er rík þjóðbúningahefð og ákvað ég að heiðra þá menningu með því að klæðast upphlut þegar ég tók á móti konungsfjölskyldunni. Margar íslenskar konur búsettar í Noregi gerðu slíkt hið sama við þetta tækifæri og það gerðu norskir gestir einnig, sem gaf veislunni einkar fallegt yfirbragð. Við hjónin erum enn í skýjunum eftir ferðina. Góða helgi öllsömul!
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta, 11. apríl 2025.