Við hjónin nutum þess heiðurs að sitja hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumeistara í Hörpu um helgina. Þar tóku fremstu matreiðslumeistarar landsins höndum saman og framreiddu margrétta matseðil af einstöku listfengi. Sú hefð hefur skapast á liðnum árum að forseti Íslands sé heiðursgestur á viðburðinum, sem er aðalfjáröflun íslenska kokkalandsliðsins sem býr sig nú undir næsta stórmót, heimsmeistaramótið í matreiðslu árið 2026. Í ávarpi mínu ítrekaði ég hversu stolt við Íslendingar megum vera af því að státa af úrvalshráefni og matreiðslufólki á heimsmælikvarða, enda fáum við gjarnan fulltrúa kokkalandsliðsins til að annast matreiðslu í móttökum forsetaembættisins fyrir erlenda gesti. Takk fyrir okkur og gullið heim kæra kokkalandslið!
Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 14. janúar 2025.