Hvað gerir forsetinn?
Auk verkefna sem bundin eru í stjórnarskrá vinnur forseti margvísleg verk sem eru venju samkvæmt hluti af starfi hans sem þjóðhöfðingja.
- Forseti er oft í hlutverki talsmanns þjóðarinnar, svo sem þegar hann veitir fjölmiðlum viðtöl, ekki síst erlendum.
- Forseti kemur fram sem fulltrúi Íslands á fundum með stjórnendum og öðrum starfsmönnum stofnana og sem ræðumaður á ráðstefnum.
- Forseti kemur fram sem talsmaður þjóðarinnar þegar hann á viðræður við erlenda þjóðhöfðingja eða aðra forsvarsmenn þjóða og flytur ávörp t.d. í opinberum heimsóknum.
- Forseti leggur margvíslegum félagasamtökum og hreyfingum lið með því að opna ráðstefnur eða koma að öðrum atburðum á þeirra vegum.
- Forseti styður ýmiss konar félagasamtök með því að vera verndari þeirra eða vera verndari einstakra atburða og vekur þannig athygli á góðu málefni.
- Forseti vinnur að landkynningu, oft í samráði við utanríkisþjónustu Íslands, Íslandsstofu eða aðra aðila, í ferðum sínum erlendis.
- Forseti liðsinnir stundum einstökum félögum eða fyrirtækjum sem leita til hans um aðstoð sem talin verður gagnleg þjóðinni.
- Forseti kemur fram sem leiðtogi þjóðarinnar þegar erlendir þjóðhöfingjar koma í opinbera heimsókn til Íslands og efla þannig kynni og tengsl milli Íslendinga og vina- og viðskiptaþjóða þeirra.
- Forseti vinnur að innri samheldni Íslendinga meðal annars með því að fara í opinberar heimsóknir innanlands, heimsækja vinnustaði og kynna sér málefni líðandi stundar á fundum með þeim sem til hans leita.
- Forseti er yfirmaður embættis forseta Íslands með líkum hætti og ráðherra sem stjórnar ráðuneyti sínu auk þess sem forseti fer með húsbóndavald á jörðinni Bessastöðum.
- Forseti flytur ræður sem ná eyrum margra, svo sem við þingsetningu og á nýársdag, þar sem hann vekur athygli á brýnum málefnum sem varða samfélag okkar.
- Forseti er gestgjafi á Bessastöðum og eflir virðingu fyrir sögu Íslands og þjóðhöfðingjasetrinu og skipta þeir gestir sem heimsækja staðinn og hitta forseta þúsundum ár hvert.
- Forseti á fundi með stjórnmálaleiðtogum í því skyni að fylgjast með þjóðmálum og stjórn landsins og getur í því hlutverki veitt góð ráð og aðhald eftir atvikum.
- Forseti svarar margs konar fyrirspurnum og erindum einstaklinga, hópa, félaga, fyrirtækja og stofnana um allt milli himins og jarðar.
- Forseti tekur á móti erlendum sendiherrum þegar þeir afhenda trúnaðarbréf sitt sem fulltrúar síns þjóðhöfðingja og á sama hátt undirritar forseti trúnaðarbréf íslenskra sendiherra því til vitnis að þeir séu trúnaðarmenn hans og fulltrúar gagnvart erlendum þjóðhöfðingjum.