Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda
Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. 6. og 7 bekk grunnskóla. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.
NKG hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem forseti Íslands afhendir verðlaun.
Markmið NKG
- Gera einstaklingnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir
- Efla og þroska frumkvæði nemandans og styrkja þannig sjálfsmynd hans
- Efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og vekja athygli á hugviti barna í skólum og atvinnulífi
Framtíðarsýn NKG
- Er að fjölga grunnskólum sem taka þátt úr alls 60 í 100 talsins
- Að stofnaður verði sjóður vegna ferðakostnaðar þátttakenda og foreldra þeirra sem koma um langan veg í vinnusmiðju og lokahóf
- Að það verði tengiliður frá hverjum grunnskóla sem sinnir móttöku gagna og kemur upplýsingum til kennara og nemenda skólanna
- Að tryggt verði rekstrarfjármagn til framtíðar í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki