Fréttir | 24. apr. 2024

Fjölskyldu sameiningar

Forseti fundar með aðgerðasinnum, þeim Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Kristínu Eiríksdóttur rithöfundum og Maríu Lilju Þrastardóttur blaðamanni. Þær greindu forseta frá aðgerðum sínum til stuðnings palestínsku fólki sem flýja þurfti stríð Ísraels á Gaza og hafði dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í byrjun febrúar héldu þær á eigin vegum til Kaíró í Egyptalandi og aðstoðuðu þar móður með þrjú börn að komast yfir landamærin frá Gaza og sameinast föður barnanna sem búsettur er á Íslandi. Í kjölfarið settu hjálparsamtökin Solaris af stað landssöfnun til að forða fólki með dvalarleyfi á Íslandi frá stríðsástandinu. Þegar átakinu lauk í mars höfðu yfir 30 milljónir króna safnast með framlögum frá almenningi og tugir einstaklinga frá Palestínu, mest konur og börn, sameinast fjölskyldum sínum á Íslandi með aðstoð íslenskra sjálfboðaliða. 

Forseti ræddi við Bergþóru, Kristínu og Maríu Lilju um atbeina þeirra við landamæri Gaza, þörfina á áframhaldandi stuðningi við flóttafólk og horfur á friði í Palestínu. Þá ræddu þau um stefnu í útlendingamálum á Íslandi, réttinn til mótmæla og um mannúð og inngildingu í íslensku samfélagi.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar