Fréttapistill | 07. ágú. 2023

Wacken

Góðir landsmenn. Ég óska öllum góðrar ferðar sem eru á leið heim eftir útihátíð, útilegu eða aðrar ferðir yfir verslunarmannahelgina hér heima. Einnig sendi ég skátum á alheimsmóti þeirra í Suður-Kóreu hlýjar kveðjur og þakka að þeir komist í skjól eftir hremmingar og yfirvofandi ofsaveður. Um leið óska ég verslunarfólki á Íslandi til hamingju með þeirra formlega frídag. Þá vona ég að landsmenn hafi notið helgarinnar.

Sjálfur er ég kominn heim af þungarokkshátíðinni miklu í Wacken í Þýskalandi. Þangað var mér boðið vegna þess að í fyrsta sinn stigu fjórar íslenskar sveitir á svið þar, Skálmöld, Sólstafir, The Vintage Caravan og Krownest. Eftir því sem ég fékk best séð fór hátíðin vel fram.

Fólk er þarna á öllum aldri, með ólíkan bakgrunn og reynslu eða starfsvettvang. Í pallborðsumræðum og fjölda viðtala ræddi ég um mikilvægi umburðarlyndis og víðsýni, meðal annars með því að forðast fordóma og staðalímyndir um fólk sem hefur áhuga á tiltekinni tegund tónlistar. Þá sagði ég brýnt að verja norrænan sagnaarf fyrir öfgaöflum sem vilja misnota hann í eigin þágu. Það er meðal annars hægt að gera með því að nýta hann á jákvæðan máta og túlka eins og vera ber, með áherslu á virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, náttúru og heilbrigðum samfélagsgildum. Í þessu sambandi þakkaði ég líka íslenskum þungarokkssveitum fyrir þeirra atbeina við að efla íslenska tungu.

Gaman var að spjalla við liðsmenn íslensku hljómsveitanna ytra og ekki síður þá landa sem lögðu leið sína til Wacken og hafa margir gert það ár eftir ár. Ég óska þeim líka góðrar heimferðar og vona að þið njótið öll sumarsins áfram – nóg lifir enn af því þótt verslunarmannahelgin sé liðin!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 7.ágúst 2023.

Myndasafn frá för forseta til Wacken.

  • Baksviðs með meðlimum hljómsveitarinnar SÓLSTAFIR á Wacken Open Air þungarokkshátíðinni í Þýskalandi.
  • Samkomutjald Íslendinga áritað, í tjaldbúðum Wacken Open Air þungarokkshátíðarinnar.
  • Pallborðsumræður um íslensku þungarokkssenuna og tengsl hennar við norrænan menningararf.
  • Á tónleikum Skálmaldar á Wacken Open Air þungarokkshátíðinni í Þýskalandi.
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar