Fréttapistill | 29. okt. 2022

Læknanemar í Slóvakíu

Það er ekki lítil ákvörðun að flytja til fjarlægs lands um margra ára skeið til að afla sér menntunar. Í Slóvakíu leggja nú yfir 170 Íslendingar stund á læknisfræði, við Jessenius-læknadeild Komeníusarháskóla í bænum Martin. Í opinberri heimsókn okkar Elizu til Slóvakíu lögðum við leið okkar þangað, ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra. Þar hittum við hluta þeirra Íslendinga sem þarna eru í læknanámi og reyndar einnig nokkra landa okkar sem eru í dýralæknanámi í borginni Košice í austurhluta landsins.

Áratugur er nú liðinn frá því að fyrstu íslensku stúdentarnir hófu nám í Martin og þeim hefur síðan fjölgað ár frá ári. Alls hafa 79 Íslendingar þegar útskrifast sem læknar frá skólanum og sum þeirra eru tekin til starfa á Íslandi. Í þessu felast mikil verðmæti fyrir litla þjóð, að fólk sæki sér þekkingu og reynslu erlendis sem við öll fáum að njóta þegar þau snúa aftur heim.

Ég óska læknanemunum okkar í Martin og dýralæknanemunum í Košice alls velfarnaðar. Um leið þakka ég góðar móttökur og hraðkennsluna í endurlífgun sem ég fékk á staðnum. Sú reynsla minnti mig á að fara á ný í námskeið í skyndhjálp.

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar