Fréttapistill | 22. nóv. 2021

Lofum það sem vel er gert

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í síðustu viku, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember. Aldarfjórðungur er frá því að stofnað var til þessa minninga- og menntadags, þegar minnt er á mikilvægi íslenskrar tungu í samfélaginu og rætt um leiðir til að efla málið og styrkja í alþjóðavæddum heimi. Ég notaði tækifærið þennan dag og hvatti Icelandair til að ávarpa farþega sína í flugferðum fyrst á íslensku en svo á ensku. Ég sé ekki betur en að fulltrúar flugfélagsins hafi tekið þeirri áskorun vel en á eftir að sannreyna það í næsta flugi út fyrir landsteinana.

Íslendingar hafa lengi haft áhyggjur af örlögum tungumálsins. Á átjándu öld var skáldið Eggert Ólafsson með böggum hildar (sem er fín leið til að segjast hafa áhyggjur) yfir stöðu þess. Hann orti langan brag um hnignun málsins og þar má m.a. finna þessi vísuorð:

Um þá tíð sem er í dag,
yrkja vildi eg stuttan brag:
Íslenskan er orðin sjúk
iðrastemmu þarf í búk,
því frúnni lengi fallið hefir fæðan mjúk.
Og hvers vegna? Jú, danskan læddi sér inn í hvern krók og kima. Skáldið kvað áfram:
Herrar þeir, sem hér við land
höndlaʼ um fisk og sokkaband,
hafa innsigt i hof-vesen,
haldnir kóngsins vildarmenn,
kompliment og kléna túngu kennaʼ ígjen.

Nú er það enskan sem smýgur inn í íslenskt mál. Hér er orðið „nú“ reyndar teygjanlegt hugtak. Um miðja síðustu öld gátu velgjörðarmenn íslenskrar tungu vart á heilum sér tekið. „Það er í sköpun hér á landi nýtt götumál, skrílsmál,“ sagði Halldór Halldórsson íslenskufræðingur og aðrir tóku í sama streng. Svona mætti lengi telja. En hér erum við enn, skrifum, tölum og hugsum á íslensku, gefum út bækur, búum til bíómyndir og þætti. Íslensk tunga er ekki á vonarvöl. En ég leyfi mér að vera bjartsýnn. Meðan við getum deilt af kappi um það hvort segja skuli „björgunarsveitarfólk“ eða „björgunarsveitarmenn“ er greinilegt að íslenskan lifir góðu lífi. Og meðan við gerum okkar málfræðilegu mistök á íslensku er ekki öll nótt úti enn!

Á hinn bóginn ættum við ekki að loka augum og eyrum fyrir því að umhverfið hefur ætíð áhrif á málið. Í tíð Eggerts Ólafssonar var það danskan sem spillti fyrir, í tíð Halldórs Halldórssonar enskan. Nú er það kannski helst tæknin sem við þurfum að hafa í huga. Við hreinlega verðum að tryggja að við getum talað við tæki og tól á íslensku. Vinna við það er þegar hafin og þetta getur alveg reddast eins og annað, þetta er í okkar höndum.

Á degi íslenskrar tungu veittum við Eliza einmitt viðurkenningar fyrir framlag til söfnunar íslenskra raddsýna í átakinu „Reddum málinu!“ Samtökin Almannarómur stóðu fyrir átaki þar sem fyrirtæki og stofnanir kepptu sín á milli og var markmiðið að safna sem flestum lesnum setningum á íslensku fyrir gagnagrunninnn Samróm. Sá grunnur verður opinn öllum sem vilja nýta hann við þróun máltæknilausna. Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms, og öðrum á þeim vettvangi þakka ég vel unnin störf í þágu málsins. Fólk getur enn farið inn á www.samromur.is og látið dæluna ganga í þjóðarþágu.

Auðvitað er margt annað sem fólk getur alið önn fyrir. Viðtengingarháttur á undir högg að sækja, þolfall sömuleiðis að ekki sé minnst á eignarfallið. Hins vegar lifir þágufallið góðu lífi, jafnvel sjúklega góðu lífi þar sem síst skyldi. Svo býr hér fólk sem kann kannski ekki íslensku, er að læra hana og gerir mistök – rétt eins og við sem höfum numið málið frá blautu barnsbeini. Við verðum að vera umburðarlynd og víðsýn, ekki dómhörð og ósanngjörn.

Á degi íslenskrar tungu lofum við það sem vel er gert. Í ár hlaut Arnaldur Indriðason, rithöfundur og sagnfræðingur, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og Vera Illugadóttir dagskrárgerðarkona fékk sérstaka viðurkenningu fyrir þætti sína í Ríkisútvarpinu um sögu og samtíð. Ég óska þeim báðum til hamingju með verðskuldaðan heiður. Fregnir af öðrum embættiserindum mínum síðustu viku má sjá á vefsíðu forseta Íslands, www.forseti.is. Má þar nefna viðurkenningu á degi mannréttinda barnsins og minningarstund um fórnarlömb umferðarslysa.

Eigið ekki endilega góðan dag og hafið ekki heldur góðan dag – þar hefur enskan smeygt sér inn í gamla og góða kveðju á íslensku. Njótið dagsins og lifið heil!

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 22. nóvember 2021.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar