Fréttapistill | 12. sep. 2023

Þingsetningarávarp

Alþingi Íslendinga var sett í dag, í 154. sinn frá árinu 1875 þegar það fékk á ný löggjafarvald. Á þessari öld hefur sú hefð skapast að forseta er ekið til þings í Packard-bifreið í vörslu embættisins, bíl af árgerð 1942 sem keyptur var í tíð Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands.

Í ávarpi mínu nefndi ég ýmis tímamót sem verða næsta ár, meðal annars 80 ára afmæli lýðveldis á Íslandi og 30 ár frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi. Þá benti ég á að íslenskt samfélag hefur gerbreyst að mörgu leyti síðustu áratugi. Stór hluti íbúa landsins er nú af erlendu bergi brotinn og sé vel að verki staðið verður samfélagið fjölbreyttara og fallegra, öflugra og framsæknara. Um leið þarf að tryggja að eining ríki um grunnstoðir samfélagsins, ekki síst einstaklingsfrelsi og hjálp til þeirra sem eru hjálpar þurfi. Þá vakti ég máls á því að í stjórnarskrá mætti vera kveðið á um það sem nú þegar segir í lögum, að íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.

Í lok máls míns komst ég svo að orði: „Vitaskuld mætti gera ýmislegt annað að umtalsefni. Að svo ótalmörgu er að hyggja í flóknu þjóðfélagi. Og þegar allt kemur til alls varðar meiru hvað við segjum við hvert annað heldur en á hvaða máli. Nú við upphaf þings lýsi ég því þeirri von að ykkur megi auðnast að vinna vel í þágu lands og þjóðar. Vissulega á þingið að vera vettvangur ágreinings og átaka ef svo ber undir. Vissulega getur verið að einhverjum þyki orð Bríetar í laginu um Esjuna eiga vel við, að við förum „eftir einbreiðum vegi sem liggur í öfuga átt“ og „allt er síendurtekið, samt er svo mikið ósagt“. Engu að síður má vona að góður andi ríki hér, að virðing verði borin fyrir ólíkum sjónarmiðum, að þingmenn geti notið ljúfra stunda milli stríða, slegið á létta strengi og fundið að þrátt fyrir allt er það mun fleira sem sameinar okkur í þessu landi en það sem sundrar okkur.“

Ávarpið má lesa í heild á vefsíðu embættisins.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 12. september 2023.

  • Lagt úr hlaði til setningar Alþingis á Packard-bifreiðinni frá 1942 sem keyptur var í tíð Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands.
  • Setning Alþingis 12. september 2023. Ljósmynd: Eyþór Árnason / Alþingi
  • Setning Alþingis 12. september 2023. Ljósmynd: Eyþór Árnason / Alþingi
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar