Fréttapistill | 12. feb. 2024

Heitavatnsskortur í Reykjanesbæ

Um helgina heimsóttum við Eliza íbúa dvalarheimila í Reykjanesbæ og litum einnig við í aðgerðastjórnstöð Almannavarna í húsnæði Brunavarna Suðurnesja. Þar hittum við embættismenn og aðra sem stýra aðgerðum vegna heitavatnsskorts á Suðurnesjum og náðum einnig að kasta kveðju á fólk að sækja sér rafmagnsofna.

Íbúarnir á dvalarheimilunum Hlévangi og Nesvöllum voru góðir heim að sækja og sama gilti um aldraða Grindvíkinga sem hafa fengið aðsetur í húsakynnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja við Skólabraut. Suðurnesjamenn eru æðrulausir og standa saman en hafa auðvitað áhyggjur af því að vera án heits vatns.

Á öllum þessum stöðum nýtti ég tækifærið og lét í ljós þakkir til þeirra sem unnið hafa nótt og dag að viðgerðum og gerð nýrra heitavatnslagna, og ekki síður þeirra sem hafa rutt upp varnargörðum að undanförnu, oftar en ekki í nánd við glóandi hraun. Þetta er einvalalið með krafta í kögglum.

Við búum í nánd við náttúruöfl sem geta svo sannarlega verið óblíð. Við reynum að verjast hverri ógn en getum ekki séð allt fyrir og verið við öllu búin. Þegar áföll ríða yfir sést úr hverju fólk er gert og hvernig við náum að nýta mátt einingar og þrautseigju. Að áfallinu liðnu skulum við svo rýna í hvað hefði mátt betur fara.

Fleiri myndir frá heimsókn okkar hjóna til Reykjanesbæjar má sjá hjá Víkurfréttum.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 12. febrúar 2024.

  • Ljósmynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi
  • Ljósmynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi
  • Ljósmynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi
  • Ljósmynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi
  • Ljósmynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi
Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar